BuiltWithNOF
Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar
og Flateyrar

 

Áfangi IV;

 Bjarkarlundur – Langidalur

 Þriðjudagurinn 31-05-2005

Mjög gott veður var, logn en skýjað, þegar við lögðum af stað um morguninn. Mjög sérstök tilfinning er að hjóla af stað með allt sitt hafurtask í eftirdragi. Sérstaklega  þegar allir aðrir ,,fljúga” framhjá í bíl og hverfa strax sjónum bak við næstu hæð eða beygju. Það tók ekki langan tíma fyrir okkur að hjóla að Kollabúðum en það heitir bærinn sem er innst í botni Þorskafjarðar.

Lagt af stað frá  Bjarkarlundi

Leiðin upp á heiðina er brött, löng og laus í sér (enda malarvegur) þannig að við leiddum hjólin upp á fyrsta hjallann. Okkur hafði verið sagt að vegurinn yfir heiðina væri mjög blautur en hann hafði verið opnaður í vikunni á undan. Þar sem við vorum með þunga vagna í eftirdragi og vegurinn gljúpur gerðum við ráð fyrir að vagnarnir og hjólin (með sín mjóu dekk) myndu sökkva eitthvað í veginn. Við höfðum þess vegna rætt að gott væri að létta vagnana með því að koma einhverju af farangrinum á bíl sem væri að fara vestur. Við ákváðum því að stoppa fyrsta bíl sem drægji okkur uppi og athuga hvort það gengi ekki að hann tæki hluta farangursins upp á Þorskafjörðurinn og Vaðalfjöll í bakgrunniháheiðina þar sem Sæluhúsið er. Þegar við vorum komnir u.þ.b. hálfa leið upp fyrstu brekkuna hitti svo vel á að Sæmi málari frá Ísafirði dró okkur uppi. Var hann á leiðinni vestur og var það ekki nema velkomið af hans hálfu að taka hluta af dótinu okkar til að létta vagnana. Hann bauðst til að taka dótið með alla leiðina í bústaðinn í Langadal en okkur fannst það vera nógu mikið svindl að hann færi með það að Sæluhúsinu. Það eru um 15 km frá botni Þorskafjarðar að sæluhúsinu og hækkunin er um 515 m. Hver smá hæðin tók við af annarri og héldum við alltaf að sú næsta væri sú síðasta. Hitinn var þá ca 3-4 ° og nokkur vindur í bakið sem létti undir. Það var lítil umferð á heiðinni og mættum við fáum á leiðinni. Það tók okkur um tvo tíma að komast í sæluhúsið.

Þar var auðvitað dótið okkar og þökkum við Sæma kærlega fyrir aðstoðina. Við fórum inn í skálann sem var ólæstur og sáum að hann er innréttaður á skemmtilegan hátt. Þegar komið er inn er ágætis anddyri og hurð inn í aðalsalinn sem er með háalofti. Þar er kolaeldavél sem er illa farin.  Kojurnar á neðri hæðinni er hægt að leggja niður með veggjunum þegar þær eru ekki í notkun. Eins er hægt að leggja setbekkina niður til að skapa meira gólfpláss fyrir t.d. dýnur.

Skálinn er illa farinn og furða að hann skuli enn standa þar sem ekkert viðhald virðist vera á honum. Úti við gluggan á gaflinum gengt hurðinni var borð og bekkur og var þar lúin gestabók og nokkur sprittkerti. Ekki man ég hver hafði verið á ferð á undan okkur en við settumst niður og fengum okkur að borða. Eftir matinn lögðum okkur á eftir á bekkina í um það bil klukkustund.

Það er synd hvað er mikill sóðaskapur í kringum skálann. Þarna lágu barnableyjur, sígarettustubbar, mannasaur og pappírsrusl út um allt. Ömurlegt að sjá þetta í okkar ,,hreina landi”.

Við skálan á ÞorskafjarðarheiðiEins og áður sagði höfðum við frétt að vegurinn yfir heiðina væri mjög blautur en þegar til kom var hann ágætur. Það hefði vafalaust mátt opna veginn mun fyrr þar sem mjög lítill snjór var á honum einungis tvö eða þrjú snjóhöft. Eftir ágæta hvíld í sæluhúsinu renndum við inn á Steingrímsfjarðarheiðina. Með matar- og hvíldartíma tók ferðin frá Bjarkarlundi að gatnamótunum á Steingrímsfjarðarheiðinni um 4klst. Þar sem þessir fínu vegvísar eru á gatnamótunum ákváðum við að taka mynd af okkur með þá í baksýn. Þegar við vorum að undirbúa myndatökuna kom ungt par akandi á bíl á suðurleið. Við stoppuðum þau og var lítið mál að fá þau til að taka mynd af okkur.  Það rifjaðist upp fyrir þeim að þau höfðu séð frétt um ferð okkar á fréttavef bb. Þau sögðu að í fréttinni væri talað um hjólaferð tveggja miðaldra manna frá Reykjavík til Ísafjarðar.

Á gatnamótum Steingrímsfjarðar-  og Þorskafjarðarheiðar

Þó það hefði komið fram í fréttinni hvað við hétum þá mundu þau það ekki en sögðust aftur á móti muna hvað við værum gamlir. Þau renndu svo í burtu á sínum mótorfáki og skildu okkur gamlingjana eftir á hjólunum.

Ský hafði dregið fyrir sólu og kólnaði nokkuð við það. Við höfðum hlakkað til að renna þessa 19 km sem eftir voru niður í Ísafjarðardjúpið á malbikuðum veginum. Sú varð ekki raunin. Mikill mótvindur var alla leiðina og þurftum við að stíga hjólin hraustlega til að halda almennilegri ferð. Okkur fannst mikill munur á aksturslagi margra bílstjóra sem við mættum eftir að við komum inná Steingrímsfjarðarheiðina og áfram til Ísafjarðar. Þökkuðum við það athugasemdunum sem við settum á bloggið í Borgarnesi og BB hafði sett á vefinn hjá sér. Seinna sáum við að Mogginn og Fréttablaðið höfðu sagt frá því líka svo það var ekki nema von. Framkoma bílstjóra var að mestu til fyrirmyndar hér eftir.

Um kl. 17 komum við í bústað Önnu Lóu og Gulla í Langadal en hann er um 4km frá Djúpveginum. Við bönkuðum uppá hjá Ingibjörgu og Oddnýju og var tekið vel á móti okkur. Afslappaðar vinkonurIngibjörg hafði eldað þennan fína mat fyrir okkur og gerðum við honum góð skil. Höfðum við áhyggjur af því að éta þær út á gaddinn en þær sögðu að við þyrftum ekkert að vera hræddir um það, Anna Lóa hefði varað þær við. Anna Lóa hafði séð til þess að við fengum inni í bústað Þorleifs Pálssonar sem er þarna rétt hjá. Við lögðum okkur þar eftir matinn og dormuðum til kl. 10  Þá skruppum við aftur í mat til Ingibjargar og var nóg til af góðum mat á þeim bænum. Þær vinkonur voru hressar og skemmtilegar og sátum við og spjölluðum í smá tíma. Sögðust þær vera í afslöppun eftir stress vetrarins sem orsakaðist af tónlistarkennslu, eiginmönnum og börnum.  

Í dag hjóluðum við 54 km og var það erfiðasti hluti leiðarinnar til þessa. Leiðin sjálf var erfið og svo var þetta fjórði ferðadagurinn okkar. Það má því gera ráð fyrir að það hafi gætt einhverrar uppsafnaðrar þreytu hjá okkur.  Ekki frekar en fyrri daginn var hægt að ná GSM sambandi svo lítið var hægt að blogga. Í bústaðnum hjá  Þorleifi komumst við í NMT síma og hringdi ég í Ásdísi og gaf ég henni stutt rapport sem hún setti á vefinn.

Á Þorskafjarðarheiði

Mig minnir að það hafi verið í ferð okkar Ásu og stelpnanna vestur í kringum 17. júní 1982 sem við fórum Þorskafjarðarheiðina. Þá var snjór yfir öllu og keyrðum við í djúpum snjógöngum yfir alla heiðina.

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]