BuiltWithNOF
Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar
og Flateyrar

 

Áfangi V;

Langidalur – Skarðseyri

Miðvikudaginn 1-06-2005

 

Það var góður andi í bústaðnum hans Þorleifs og vöknuðum við hressir og úthvíldir um kl 9. Þökkum við Þorleifi og frú kærlega fyrir lánið á bústaðnum. Við fórum í morgunmat hjá Ingibjörgu og vinkonu hennar áður en við lögðum af stað. Þökkum við þeim kærlega fyrir okkur og vonum að við höfum ekki truflað afslöppunina. Heldur var þungbúið þegar við lögðum í hann en lygnt og sæmilega hlýtt. Þegar við vorum komnir að  baðhúsinu í Gervidal um kl. 13 (eftir 20km ferð) var farið að rofa til og komið þetta fína veður. Fjörðurinn var spegilsléttur og spegluðust fjöllin og skýin í sjónum. Kollurnar busluðu í flæðarmálinu og Lóan söng sitt “dirrin dí” uppi í hlíðinni. Það var svo afslappandi að hjóla inn fjörðinn að ég tók ekki eftir því fyrr en við fórum af hjólunum við baðhúsið að ég hafði týnt Við baðhúsið í Gervidal síðbuxunum sem ég hafði sett ofan á töskuna á hjólinu. Mest alla leiðina höfum við  hjólað í stuttbuxum þar sem það er mun þægilegra því það næst mun betri kæling. Var ég í sérstökum hjólabuxum með svamp rassbót sem gerði að mér leið alveg þokkalega í botninum. Frekar kalt hafði verið þegar við lögðum af stað frá bústaðnum og reiknaði ég alveg eins með að þurfa að nota síðbuxurnar ef það hvessti. Þegar ég var að hugsa um að snúa við og leita þeirra sáum við bíl á leiðinni inn fjörðinn og ákváðum að stoppa hann og spyrjast fyrir hvort þeir hefðu nokkuð séð brækurnar góðu á veginum! Eins fáránlegt og það var nú. Þegar bíllinn kom nær sáum við að þetta voru Ingibjörg og Oddný sem voru þarna á ferðinni og með brækurnar með sér. Þær höfðu verið á leiðinni til Hólmavíkur (líklega að byrgja sig upp af mat eftir átið á okkur) og fundið buxurnar rétt við bústaðinn. Mikið lán það. Framvegis verður maður að muna að festa hlutina  betur niður og ekkert slugs þar.

Við baðhúsið í Gervidal  Séð út ÍsafjörðinnEins og áður sagði var komið þetta fína veður sólskin og logn. Við skelltum okkur í pottinn sem var alveg passlega heitur og dormuðum þar í smá tíma og fórum svo í smá sólbað. Það er mikill lúxus að hafa heitan pott rétt við vegkantinn til að hressa sig við. Við ætluðum varla að nenna af stað aftur okkur leið svo vel. Mjög þægilegt er að hjóla inn Ísafjörðinn vegurinn allur malbikaður og gefa lágar hæðir og ásar leiðinni skemmtilega tilbreytingu. Rétt áður en við komum að afleggjaranum upp á Hestakleifina tókum við eftir mjög stórum sel sem lá í fjörunni.  Við gengum niður að kletti sem hann lá undir en hann hreyfði sig varla þó hann yrði okkar var. Það var auðsjáanlega eitthvað að honum greyjinu.

Þegar við vorum komnir langleiðina upp á  Hestakeifina yfir í Mjóafjörð stoppaði hjá okkur pallbíll af stærri gerðinni, Ford 350 með pallhýsi og kerru aftan í. Eitthvað fum kom á okkur þegar rúðunni okkar megin var rennt niður og okkur boðið far yfir heiðina og vissum við ekki alveg hvernig  við ættum að svara svona óvæntu boði. Bílstjórinn var augsýnilega mjög mannglöggur því hann þekkti Guðbjart um leið og hann sá hann þó hann væri með reiðhjólahjálminn á hausnum. Í ljós kom að bílstjórinn var frá Flatreyri og kannaðist við Guðbjart og hans fólk langt aftur í aldir að ég held. Þetta var feiki hress náungi sem vann í Reykjanesi og þurfti að skreppa til Ísafjarðar. Það var ekkert fum lengur á Guðbjarti og farið snarlega þegið en ekki lengra en að Sæluhúsinu á háheiðinni (345m). Þetta var allt alvöru hjá  Jóa Það fannst bílstjóranum hálf skrítið en ok. það var okkar vandamál að vilja ekki fara lengra með honum. Þarna gafst Guðbjarti kostur á að testa ættfræði kunnáttuna enn frekar og ræddu þeir mikið.Okkur leið samt hálf illa að hafa þegið farið en bílstjórinn sem mig minnir að hafi heitið Jói lofaði okkur því að hann myndi ekki segja neinum frá svindlinu. Renndum við okkur niður heiðina sem er mjög gróf og lá við að  tennurnar losnuðu á leiðinni niður svo mikill var hristingurinn. Þegar við komum niður vorum við orðnir hálf dofnir í höndunum. Ég hafði verið með lítinn iPod Shuffle með í ferðina sem ég stakk í buxnastrenginn þar sem engir vasar eru á hjólabuxunum. Hafði ég oft hlustað á hann á leiðinni þ.e. þegar hann var ekki rafmagnslaus. Það er ótrúlega gott að vera með músík í eyrunum þegar maður er að hjóla. Þá finnst manni það að stíga pedalana bara vera gert til þess að halda taktinum. Vegna hristingsins niður Hestakleifina voru heyrnartólin alltaf að detta úr eyrunum og snúrurnar úr þeim að flækjast fyrir mér. Ég vatt því heyrnartólunum utanum iPodin og stakk öllu saman í buxnastrenginn. Ég tók svo eftir því þegar við vorum komnir langleiðina út Mjóafjörðinn að ég hafði týnt öllu saman, iPodinum og heyrnartólunum. Ég nennti ómögulega til baka en ákvað í stað þess að hringja Önnu Lóu þegar ég næði GSM sambandi næst og biðja hana að kíkja eftir honum fyrir mig en þau áttu leið um daginn eftir. Þórdís og Dúddi kíktu líka eftir honum en iPodinn hefur aldrei fundist.  Okkur leið ágætlega að öðru leiti en því að ég var farinn að sólbrenna á kálfunum  og Guðbjartur var orðinn eitthvað ósáttur við hnakkinn á hjólinu. Bloggað í ÖgurnesiEkki furða að hann væri ósáttur því hann var með örmjóan hnakk sem ég hafði fengið með hjólinu mínu og gefist upp á.

Á Ögurnesi komumst við loks í GSM samband og settumst við niður fyrir utan veginn í blíðunni og gat ég þar sent texta og myndir til Ásdísar sem setti þær síðan á bloggsíðuna. Frá Ögurnesi er stutt (8km) inn á Skarðseyri þar sem bústaður Þórdísar og Dúdda  er og vorum við snöggir þangað enda orðnir svangir.

Þegar þangað kom hófst leitin að lyklinum að bústaðnum. Það er óhætt að segja að það er ekki fyrir hvaða skussa sem er að finna hann ef hann er ekki með leiðbeiningar frá eigendum. Þegar inn var komið kíktum við hvort ekki væri til eitthvað ætilegt þar sem við vorum orðnir ansi leiðir á brauði og flatkökum eftir daginn. Auðvitað minnugir kræsinganna hjá Ingibjörgu deginum áður. Fundum við pasta, sólþurrkaða tómata og G-Rjóma ofl svo ég eldaði þennan fína pastarétt (eða það fannst okkur) á nýju gaseldavélinni. Drykkjarföngin voru ekki af verri endanum því við fundum gæða rauðvínsflösku í reiðuleysi og komum skikki á hana enda þyrstir eftir ferðalagið. Okkur leið bara fjandi vel eftir matinn og vínið. Það er mikill léttir eftir að hafa verið úti allan daginn að komast í skjól fyrir vindinum.

Vegalengdin sem hjóluð var í dag var  tæplega 80 km.

Eldað, matast og drukkið á Skarðseyri

 

 

 

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]