BuiltWithNOF
Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar
og Flateyrar

 

Áfangi VI;

Skarðseyri – Svarfhóll

Fimmtudagurinn 2-06-2005

Við vöknuðum um morguninn á þessum vanalega tíma uppúr kl. 9 eftir ágætis svefn. Það var að vísu var nokkuð kalt um nóttina og hefur hitinn úti ábyggilega farið niður undir frostmark. Heiðskýrt var og 4 til 6 stiga hiti en ansi hvasst út fjörðinn. Þar sem  við vorum á leið inn Skötufjörðurinn sem er með lengri fjörðum ákváðum við að bíða fram undir hádegi til að sjá hvort ekki myndi lægja eitthvað.

Bústaður Þórdísar og Dúdda á Skarðseyri

 

Um 12 leytið hafði lægt mikið og fannst okkur ’ann vera að leggjast í lognið og drifum okkur af stað. Þökkum við Þórdísi og Dúdda kærlega fyrir lánið á bústaðnum og erum hrifnir af smekk þeirra á rauðvíni. Gerðum við okkur vonir um að við myndum ná að fara fyrir fjörðinn meðan vindurinn væri að snúa sér. Það var orðið sæmilega hlýtt upp úr hádeginu. Í botni fjarðarins lauk malbikinu og tók þar við einn versti kafli ferðarinnar. Vegna vegagerðar var þar ófrágenginn grjótharður malarvegur. Við sáum á skilti að framkvæmdum við veginn hefði átt að ljúka um haustið 2004 en því hafði augljóslega seinkað. Á leiðinni út fjörðinn stoppaði bíll hjá okkur og stökk Óli Lúðvíks út úr honum, fjallhress. Hann var á leiðinni suður og létum við hann auðvitað taka af okkur mynd. Það var kvöð allra sem stoppuðu hjá okkur. Óla fannst við svaka flottir og duglegir og fór að afsaka sig fyrir það hvað hann væri latur að hreyfa sig. Við vorum mjög ánægðir með hrósið en gátum lítið sagt um hitt annað en hann ætti bara að fara að byrja á einhverju. Svo flýtti hann sér inn í bílinn enda orðið kalt og brunaði í burtu. Eftir stóðum við á stuttbuxum og einum bol og fannst okkur hitinn þægilegur enda var okkur heitt eftir átökin á hjólinu. Þegar við lögðum af stað frá Reykjavík höfðum við ákveðið að láta Garmin Forerunner tækin skrá niður (sjálfvirkt) alla ferla og hæðarlínur ásamt hjartslætti.

 

Kristján í Hvítanesi

Þar sem ekkert rafmagn er í bústaðnum hjá Þórdísi og Dúdda gátum við ekki hlaðið græjurnar þar. Við vorum því orðnir nokkuð stressaðir yfir því að plottun leiðarinnar myndi klikka vegna rafmagnsleysis en hleðsla hafði verið í Langadal. Við ákváðum því að leita ásjár hjá Kristjáni bónda á Hvítanesi við Skötufjörð og var sjálfsagt mál að fá að hlaða græjurnar hjá honum. Hann sagði okkur að hann hefði bjargað frönskum hjólreiðamanni innarlega í firðinum sl. haust. Gífurlega hvasst hefði verið og hafði frakkinn fokið tvisvar af út af veginum og ofan í fjöru. Fyrir tilviljun var hann á ferð þarna með syni sínum og hirtu þeir feðgar hann upp og var hann hjá þeim um nóttina. Hélt hann svo áfram daginn eftir og sagðist hann hafa fengið jólakort frá honum um síðustu jól. Það var ekkert svona fok vesen á okkur Guðbjarti. Við settumst bara út í sólina fengum okkur að borða og fórum að yfirfara teinana í gjörðunum (en við hefðum mátt muna eftir því að senda jólakort í Hvítanesið). Eftir allan hristinginn á grófum veginum út fjörðinn og þar áður á veginum í Hestakleifinni var farið að braka ansi mikið í hjólgjörðunum. Við athugun  sá Guðbjartur að teinn í afturhjólinu var brotinn. Ekki var hægt að skipta um hann þar sem við vorum ekki með varateina. Bundum við lausa teininn fastan við annan tein og vonuðum að vegurinn batnaði fljótt. Þessi bilun ef bilun má kalla leiddi hugann að því hvað við höfðum verið heppnir með hjólin. Ekkert hafði komið uppá með þau hingað til, sjö, níu þrettán. Eftir rúmlega klukkustundar stopp í Hvítanesi héldum við af stað og skánaði vegurinn stuttu seinna og var ágætur alla leið til Ísafjarðar. Það er mjög þægilegt að hjóla Skötu- og Hestfjörðinn (þar sem malbikið er) því öll leiðin liggur nánast í flæðarmálinu. Þegar við komum uppá hæðina milli Hest- og Seyðisfjarðar var farið að hvessa og draga í loftið og kólnaði nokkuð við það. Létum við okkur renna niður brekkuna niður í botn Seyðisfjarðar og náðum við hátt í 60km hraða mest. Það er að vísu nokkuð glæfralegt að fara svona hratt á reiðhjóli með aftaní vagn og ákváðum við að láta slíkt flan eiga sig í framtíðinni.

Gulli á leið í bústaðinn

Í Seyðisfirði mættum við Gulla sem var að fara með byggingatimbur í bústaðinn í Langadal. Hann sagðist hafa keypt fyrir okkur kjöt á grillið og fleira góðgæti eins og um var beðið og skilið það eftir í bústað Lilju og Braga sem er á Svarfhóli í  Álftafirði en það var næsti náttstaður. Á Kambsnesinu var orðið ansi hvasst og kalt en við gáfum okkur tíma til að láta konu taka mynd af okkur en hún hafði stoppað til að hleypa dóttur sinni út úr bílnum. Sú stutta þurfti að sinna kalli náttúrunnar en þegar til kom vissi hún ekkert hvernig hún átti að bera sig að. ,,mamma ég kann þetta ekki ég hef aldrei pissað úti”

Kalt og hvasst á Kambsnesinu. Álftafjörður og  Súðavík með  fjallið Kofra  í baksýn


Sem betur fer var vindurinn í bakið inn Álfafjörðinn sem er jafnvel lengri en Skötufjörðurinn. Á Kambsnesinu náðum við fyrst aftur GSM sambandi frá því í Ögurnesi og gátum við sinnt tilkynningaskyldunni þar.  Dagleiðinni lauk innst í Álftafirði þar sem Lilja og Bragi ,,á Búinu” eiga sumarbústað og höfðum við fengið inni í honum um nóttina. Bústaðurinn er í landi Svarfhóls en það er ættaróðal Braga en engin búskapur er þar lengur. Á tröppunum var innkaupapokinn frá Gulla sem í var grillkjöt, kartöflur, rauðvín og det hele. Lilja hafði látið okkur fá mjög góðar leiðbeiningar um það hvernig á að koma á hita og vatni. Það er mikill munur að haf góðar leiðbeiningar og þurfa ekkert að hugsa þegar maður kemur í ný húsakynni. Við vorum samt í einhverju veseni með að finna grillkryddið og endaði með því að ég bjallaði í Önnu Lóu sem var að fara í bústaðinn og átti þar  af leiðandi leið framhjá. Kippti hún með sér því sem vantaði uppá og kom með til okkar.  Hófst nú grillun og annað matarstúss. Létt verk var að ná tappanum úr vínflöskunni eftir að við höfðum fundið tappatogarann. Þessi fína sturta var í bústaðnum og nóg af heitu vatni og var það óspart notað þar sem við höfðum ekki komist í bað í tvo daga.

Lítið var hægt að blogga þar sem erfitt er að ná GSM sambandi innst í Álftafirði. Betra samband var úti en inni en þar sem frekar kalt var úti 1-2° sló ég smá texta inn í Qtec’inn inni og sendi hann ásamt myndum til Ásdísar sem setti það á Bloggið. Þökkum við Lilju og Braga kærlega fyrir að afnotin af bústaðnum. Það hefði orðið kalt að hýrast í tjaldinu um nóttina. Við hefðum auðvitað getað klárað túrinn og farið alla leiðina til Ísafjarðar en það var ekki rétta stemmingin. Við vildum renna inn í bæinn um miðjan dag og hitta vini og vandamenn á Silfurtorginu.

Vegalengdin sem hjóluð var í dag var  um 80 km.

Kokkurinn að gera sig kláran í bústað Lilju og Braga á  Svarfhóli í Álftafirði

 

 

[Tómstund.net] [Fjölskyldan] [Ferðalög] [Vefsíður] [GPS dótakassinn]